Beint į leišarkerfi vefsins

Fęšingarorlofssjóšur

Foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði samfellt á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns fá greiddan fæðingarstyrk námsmanna.

Fullt nám
Fullt nám telst vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama á við um 75-100% nám á háskólastigi eða annað sambærilegt nám. Leggja þarf fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í a.m.k. 75% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Verklegt nám sem stundað hefur verið á Íslandi á síðustu sex mánuðum fyrir fæðingu barns er metið sem fullt nám ef það veitir ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Ekki er heimilt að taka meðaltal tveggja anna við mat á námsframvindu.

Heimilt er að greiða foreldri fæðingarstyrk þrátt fyrir að skilyrði um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur sé ekki uppfyllt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Starfshlutfall í hverjum mánuði þarf að vera a.m.k. 25%.

Heimilt er að greiða foreldri fæðingarstyrk námsmanna þegar foreldri hefur lokið a.m.k. einnar annar námi og hefur síðan verið samfellt á innlendum vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í sex mánuði.

Heimilt er að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þó foreldri fullnægi ekki skilyrði um fullt nám þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka ákveðinni prófgráðu.

Einnig er heimilt að greiða móður fæðingarstyrk námsmanna þótt hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur, enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu af meðgöngutengdum heilsufarsástæðum. Móðir skal leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast hefur hana á meðgöngu því til staðfestingar ásamt staðfestingu frá skóla um að hún hafi verið skráð í fullt nám.

Lögheimili á Íslandi
Skilyrði fyrir því að eiga rétt til fæðingarstyrks er að eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt það síðustu 12 mánuði þar á undan. Heimilt er að taka til greina búsetu- og tryggingatímabil í öðru EES ríki á 12 mánaða tímabilinu hafi foreldri haft lögheimili hér á landi í a.m.k. einhvern tíma í síðasta mánuði fyrir fæðingardag barns eða þann dag er barn kemur inn á heimili vegna frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Ekki má hafa liðið meira en mánuður frá því að tryggingatímabili í öðru EES-ríki lauk. Foreldri skal láta tilskilin vottorð um búsetu - og tryggingatímabil í öðru EES-ríki fylgja með umsókn sinni til Fæðingarorlofssjóðs.

Misjafnt er milli landa hvort viðkomandi tryggingastofnun í landinu gefi út slíkt vottorð til foreldris eða hvort foreldrið þurfi að leita til Sjúkratrygginga Íslands með að fá slíkt vottorð. Ef foreldri þarf að leita til Sjúkratrygginga Íslands þarf foreldrið að skila þeirri stofnun eyðublaðinu „Umsókn um skráningu í tryggingaskrá" sem í framhaldinu sendir S040 vottorð til viðkomandi tryggingastofnunar í EES-ríkinu sem svarar með S041 vottorði sem er jafnframt það vottorð sem berast þarf Fæðingarorlofssjóði. 

Foreldri sem er námsmaður erlendis og hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis getur átt rétt á greiðslu fæðingarstyrks enda hafi foreldrið átt lögheimili hér á landi í a.m.k. fimm ár fyrir flutning og uppfyllir skilyrði um fullt nám. Hið sama gildir þegar foreldri hefur flutt lögheimili sitt tímabundið og stundar fjarnám við íslenskan skóla á þeim tíma. Sé til staðar réttur í búsetulandinu koma þær greiðslur til frádráttar greiðslu fæðingarstyrks.

Forsjá barns
Forsjárlaust foreldri á rétt til fæðingarstyrks liggi fyrir samþykki þess foeldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem greiðsla fæðingarstyrks stendur yfir. Umsókn verður þó ekki afgreidd fyrr en barn hefur verið feðrað og fyrir liggur fæðingarvottorð útgefið af Þjóðskrá Íslands.

Sjálfstæður/sameiginlegur réttur foreldra
Að ákveðnum skilyrðum uppfylltum á hvort foreldri um sig sjálfstæðan og óframseljanlegan rétt til greiðslu fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði. Foreldrar eiga þar að auki sameiginlegan rétt til greiðslu fæðingarstyrks í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða þeir skipt á milli sín. Réttur til fæðingarstyrks fellur niður við 24 mánaða aldur barns.

Yfirfærsla réttinda milli foreldra

  • Ef annað foreldrið andast eftir fæðingu barns en áður en barn nær 18 mánaða aldri færist sá réttur til fæðingarstyrks sem hinn látni hefur ekki þegar nýtt sér yfir til eftirlifandi foreldris. Við tilfærsluna verður réttur hins látna foreldris að þeim réttindum er hið eftirlifandi foreldri hefur áunnið sér samkvæmt lögunum. Hið sama gildir um einhleypa móður sem hefur gengist undir tæknifrjóvgun eða einhleypt foreldri sem hefur ættleitt barn eða tekið í varanlegt fóstur. Verður þá að berast staðfesting frá þar til bærum aðilum um að móðir hafi verið einhleyp er hún gekkst undir tæknifrjóvgun eða að foreldri hafi verið einhleypt þegar það ættleiddi barnið eða tók í varanlegt fóstur.
  • Ef annað foreldrið andast á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi öðlast hitt foreldrið rétt til fæðingarstyrks í allt að níu mánuði.
  • Foreldri sem er ófært vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss eða afplánunar refsivistar um að annast barn sitt á fyrstu átján mánuðunum eftir fæðingu þess er heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarstyrks sem það hefur ekki þegar nýtt sér til hins foreldrisins að hluta eða öllu leyti. Á þetta við hvort sem foreldrar fara sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Heimilt er að veita undanþágu frá samþykki foreldris um framsal réttinda þegar foreldri er ófært um að veita samþykki sitt vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss og skal þá Vinnumálastofnun meta hvort skilyrðum um framsal réttindanna sé fullnægt. Ástand foreldris vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss sem leiðir til þess að foreldrið er ófært um að annast barnið á fyrrgreindu tímabili eða veita samþykki sitt um framsal réttinda sinna skal staðfest með læknisvottorði þess sérfræðilæknis sem annast foreldrið. Fangelsismálayfirvöld skulu staðfesta að foreldrið muni afplána refsivist á fyrrgreindu tímabili.

Greiðslur
Upphaf þess tímabils sem fæðingarstyrkur greiðist fyrir miðast við fæðingarmánuð barns óháð því hvaða mánaðardag barn fæðist. Foreldri getur þó ákveðið að greiðslur skuli hefjast síðar. Greiðslum verður að vera lokið áður en barnið verður 24 mánaða. Greitt er eftir á fyrir undanfarandi mánuð, fyrsta virkan dag hvers mánaðar og eru greiðslurnar staðgreiðsluskyldar. Foreldri sem fær fæðingarstyrk getur ekki skipt greiðslum yfir á fleiri tímabil.

Við ættleiðingu eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur miðast greiðslur fæðingarstyrks við þann mánuð sem barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Ef foreldrar þurfa að sækja barnið til annarra landa getur fæðingarorlofið hafist við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist ættleitt.

Ekki er heimilt að stunda vinnu á sama tíma og greiðslur fæðingarstyrks eiga sér stað.

Umsóknir
Foreldri skal sækja um fæðingarstyrk í síðasta lagi þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns.


Samskipti


Fæðingarorlofssjóður:
Strandgata 1, 530 Hvammstanga
Kt. 450101-3380
Banki: 0111-26-1800

Opnunartímar:
Hvammstangi frá 9-15.
Kringlan 1 Reykjavík, sjá hér.
Aðrar þjónustuskrifstofur, sjá hér. 

Símatímar:
Alla virka daga frá 9-15.

Sími: 515-4800
Fax: 582-4850
Netfang: faedingarorlof@vmst.is

Text marker
Hefur þú ábendingu um
hvernig bæta megi þjónustu
Fæðingarorlofssjóðs?

 Ábendingar 

 


Stjórnborš

Forsķša vefsins Stękka letur Minnka letur Senda žessa sķšu Prenta žessa sķšu Veftré Hamur fyrir sjónskerta

Mynd

Fęšingarorlofssjóšur